Sport

Einn sá umdeildasti berst fyrir framan Trump fjölskyldumeðlimi í kvöld

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Colby Covington eftir opnu æfinguna fyrr í vikunni.
Colby Covington eftir opnu æfinguna fyrr í vikunni. Vísir/Getty
Einn umdeildasti bardagamaður UFC í dag, Colby Covington, snýr aftur í búrið í kvöld tæpum 14 mánuðum eftir sinn síðasta bardaga. Covington mun fá góðan stuðning frá meðlimum Trump fjölskyldunnar sem verða viðstaddir bardagann.

Colby Covington hefur verið afar óvinsæll síðan hann tók þá meðvituðu ákvörðun að rífa kjaft við allt og alla en fram að því fór frekar lítið fyrir honum. Slíkir bardagamenn eru alltaf umdeildir en hafa alltaf átt sína aðdáendur eins og Chael Sonnen og Conor McGregor hafa sýnt. Kjafturinn á Covington virðist þó ekki vera að heilla marga en þó hann sé að koma sér á framfæri á hann fáa aðdáendur.

Hann mætir einum vinsælasta bardagamanni UFC í dag, hinum vægðarlausa Robbie Lawler, sem hefur alltaf verið þekktur fyrir að láta verkin tala í búrinu frekar en í viðtölum. Skapgerð þeirra utan búrsins er eins ólík og hún verður en það sama má segja um stíl þeirra innan búrsins. Covington treystir á glímuna og tekur menn niður upp við búrið. Lawler vill halda bardaganum standandi og er með ógnvænlegan kraft í höndunum.

Covington hefur reynt eins og hann getur að vekja á sér athygli og bauð t.d. þremur dömum upp á svið á opnu æfingunni fyrr í vikunni í stað þess að æfa. Þá lætur hann varla sjá sig án þess að vera með „Make America Great Again“ derhúfuna sína og hitti Donald Trump í Hvíta húsinu fyrir ári síðan.

Í kvöld verða þeir Donald Trump Jr. og Eric Trump viðstaddir bardaga Covington enda kunna þeir að meta menn sem „rífa kjaft og eru sigurvegarar“. Þó Covington sé oft á tíðum kjánalegur verður ekki tekið af honum að hann er hörku bardagamaður og hefur unnið 14 af 15 bardögum sínum í MMA.

Sigur mun tryggja Covington titilbardaga en það eru ansi margir sem myndu vilja sjá Lawler skemma það. Bardagi þeirra verður aðalbardagi kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í Newark í kvöld. Bardagakvöldið verður í beinni útsendingu en bein útsending hefst kl. 19:00 á Stöð 2 Sport.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×