Erlent

Nauðlenti á hraðbraut en stoppaði á rauðu ljósi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vélin staðnæmdist á rauðu ljósi.
Vélin staðnæmdist á rauðu ljósi. Skjáskot
Engan sakaði þegar eins hreyfils KR2-flugvél var nauðlent á hraðbraut í Tacoma í Washington-ríki í Bandaríkjunum.

Ríkislögreglumaðurinn Clint Thompson var í eftirlitsferð um Pierce-sýslu þegar hann sá skyndilega flugvél í lágflugi svífa yfir götunni. ABC hefur eftir Thompson að hann hafi í fyrstu talið að um fjarstýrða flugvél hafi verið að ræða.

„Eftir því sem hún [flugvélin] kom nær, varð hún stærri og stærri,“ sagði Thompson sem kvaðst hafa tekið snarpa U-beygju þegar hann sá í hvað stefndi. Hann hafi kveikt á ljósum lögreglubílsins með það fyrir augum að hægja á umferðinni í kringum sig.

Vélin lenti á beygjuakrein á Pacific Avenue-hraðbrautinni og nam staðar á rauðu ljósi við gatnamótin. Í myndbandi sem tekin var á mælaborðsmyndavél lögreglubílsins má sjá þegar Thompson tekur flugmann vélarinnar tali og hjálpar honum í kjölfarið að fjarlægja vélina af veginum.

Lögreglan í Washington segir flugmann vélarinnar hafa þurft að nauðlenda vegna bilunar í eldsneytisbúnaði og staðfestir að engan hafi sakað við lendinguna. Haft er eftir David Acklam, flugmanni vélarinnar, að hann hafi verið á leið til vinnu, flugleiðis, þegar vélin drap á sér. Þakkaði hann Thompson fyrir skjót viðbrögð.

Sjón er sögu ríkari, en myndband af neyðarlendingunni má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×