Erlent

Navalní segir að eitrað hafi verið fyrir sér í fangelsinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Navalní hefur ítrekað verið handtekinn fyrir að skipuleggja og hvetja til mótmæla gegn stjórnvöldum.
Navalní hefur ítrekað verið handtekinn fyrir að skipuleggja og hvetja til mótmæla gegn stjórnvöldum. AP/Pavel Golovkin
Lögmaður Alexei Navalní, leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, hefur sent yfirvöldum formlega kvörtun um að eitrað hafi verið fyrir Navalní í fangelsi á sunnudag. Navalní var fluttur á sjúkrahús í skyndi þegar hann sýndi einkenni um bráðaofnæmi.

Rússnesk yfirvöld handtóku Navalní á miðvikudag í síðustu viku fyrir að hvetja til mótmæla í Moskvu um síðustu helgi sem ekki hafði verið veitt leyfi fyrir. Hann var dæmdur í þrjátíu daga fangelsi. Á annað þúsund mótmælendur voru handteknir í borginni um helgina.

Navalní var fluttur á fangelsissjúkrahús á sunnudag með verulega bólgu í andliti og útbrot. Hann var útskrifaður á mánudag og sendur aftur í fangaklefa sinn, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Algengt er að stjórnarandstæðingar og blaðamenn séu ráðnir af dögum í Rússlandi. Stjórnvöld í Kreml hafa einnig verið sökuð um að hafa eitrað fyrir andstæðingum sínum erlendis, þar á meðal fyrrverandi njósnaranum Sergei Skrípal og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi í mars í fyrra.


Tengdar fréttir

Heilsa Navalní sögð ásættanleg

Bráð veikindi leiðtoga stjórnarandstöðunnar í fangelsi hafa vakið athygli enda þekkt að gagnrýnendur stjórnvalda í Kreml séu myrtir eða beittir ofbeldi.

Nálægt 1.400 handteknir í gær eftir mótmæli í Moskvu

Aðgerðir yfirvalda gegn stjórnarandstæðingum hófust áður en mótmælin hófust í gær. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny var handtekinn síðasta miðvikudag og dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að boða til mótmælanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×