Innlent

Handtóku berfættan mann í sjúkrahúsfötum í Laugardalnum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Alls voru bókuð 93 mál hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Alls voru bókuð 93 mál hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Vilhelm
Rétt upp úr klukkan sjö í gærkvöldi handtók Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mann í annarlegu ástandi í Laugardalnum. Sá var klæddur hvítum sjúkrahúsfötum og berfættur.

Maðurinn var færður á sjúkrastofnun til þess að meta ástand hans. Þar réðst maðurinn bæði á lækni og lögreglumann. Maðurinn var í kjölfarið vistaður á viðeigandi stofnun, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar.

Þá hafði lögreglan afskipti af manni sem var sofandi í bíl við skóla í hverfi 113. Maðurinn var handtekinn grunaður um vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Frá klukkan 17 í gær og til 5 í morgun voru alls 93 mál bókuð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að töluvert hafi verið um útköll vegna hávaða og ölvunar, en tónleikar Eds Sheeran í Laugardalnum eru sagðir hafa farið vel fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×