Handbolti

Íslensku stelpurnar í úrslit á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna.
Íslensku stelpurnar fagna. mynd/hsí
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 17 ára og yngri tryggði sér sæti í úrslit EM-b með tveggja marka sigri á Póllandi, 25-23, í dag.

Ásdís Þóra Ágústsdóttir, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Vals, skoraði ellefu mörk fyrir íslenska liðið í leiknum.

Pólverjar byrjuðu leikinn mun betur, skoruðu fyrstu fimm mörkin og voru með undirtökin. Íslendingar tóku við sér eftir því sem leið á og náði að minnka muninn í þrjú mörk, 12-15, fyrir hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var frábær hjá íslenska liðinu. Pólverjar héldu þó forystunni alveg þar til fjórar mínútur voru eftir. Þá jafnaði Ásdís Þóra í 22-22. Ísland skoraði svo þrjú af síðustu fjórum mörkum leiksins og landaði frábærum sigri, 25-23.

Íslenska vörnin var sterk í seinni hálfleik þar sem Pólverjar skoruðu aðeins átta mörk.

Það kemur í ljós í kvöld hvort Ísland mætir heimaliði Ítalíu eða Tékklandi í úrslitaleiknum sem fer fram á morgun.

Mörk Íslands:

Ásdís Þóra Ágústsdóttir 11, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Andrea Gunnlaugsdóttir 1, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1, Ída Margrét Stefánsdóttir 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×