Innlent

Látin laus gegn því að hún færi heim að leggja sig

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni í nótt. Vísir/Vilhelm
Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt hafði lögreglan afskipti af og handtók konu á skemmtistað í miðborginni. Sú hafði gerst uppvís að því að veitast að dyravörðum og gestum staðarins. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu var konan færð á lögreglustöð en látin laus skömmu síðar gegn því skilyrði að hún færi heim að leggja sig.

Á fimmta tímanum barst lögreglu tilkynning um óvelkominn mann í heimahúsi í Vesturbænum. Kom á daginn að maðurinn var eftirlýstur í tengslum við annað mál. Hann var því handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Rétt fyrir sex í morgun hafði lögregla síðan afskipti af pari í bifreið í Árbænum. Bifreiðin reyndist á röngum númerum og telur lögregla hugsanlegt að henni hafi verið stolið. Þá var ökumaður bifreiðarinnar undir áhrifum fíkniefna.

Nokkuð erilsamt var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og þá sérstaklega á lögreglustöðinni á Hverfisgötu, eins og oft vill verða um helgar. Flest mála á borði lögreglunnar sneru að ölvunar- eða vímuakstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×