Greint var frá því fyrr í vikunni að viðræður Disney og Sony Pictures um áframhaldandi samframleiðslu á myndum um Spiderman hefðu siglt í strand.
Myndverin höfðu áður komist að því samkomulagi að skipta kostnaði við gerð Spiderman mynda jafnt á milli sín.
Síðan þessi deila rataði í fréttirnar hafa aðdáendur og leikarar í Marvel-myndunum beint gremju sinni að Sony. Hefur Sony fengið að finna fyrir því á samfélagsmiðlum og hefur Jeremy Renner, sem leikur Hawkeye í Avengers-myndunum, komið Disney til varnar með því að segja Sony að afhenda Marvel Spiderman á ný.
Stan Lee er maðurinn sem stofnaði Marvel-myndasögurnar og er sá sem skapaði langflesta af þeim karakterum sem njóta svo mikilla vinsælda í dag, þar á meðal Ironman, Captain America og áðurnefndan Spiderman.
Dóttir hans heitir Joan Celia Lee en hún ræddi við TMZ um þessar deilur en Stan Lee lést í fyrra.

„Hvort sem það er Sony eða einhver annar, áframhaldandi þróun á karakterum föður míns og arfleiðar hans á skilið fleiri sjónarhorn.“
Hún lauk máli sínu með því að gagnrýna Marvel og Disney harðlega. „Þegar faðirinn minn dó, þá hafði enginn frá Disney eða Marvel samband við mig. Frá fyrsta degi hafa þeir gert verk föður míns að söluvöru og aldrei sýnt honum eða arfleið hans nokkra virðingu eða velsæmi. Þegar allt kemur til alls þá kom enginn verr fram við föður minn en stjórnendur Marvel og Disney.“
Þessar deilur hófust í kjölfar þess að nýjasta Spiderman-myndin, Far From Home, varð tekjuhæsta mynd Sony frá upphafi. Tvær Spiderman-myndir til viðbótar eru fyrirhugaðar með Tom Holland í aðalhlutverki og Jon Watts sem leikstjóra.
Ef fram fer sem horfir verður Kevin Feige, forstjóri Marvel og sá sem hefur haldið þétt utan um allar þær Marvel-myndir sem komið hafa út á undanförnum áratug, ekki framleiðandi þeirra mynda.
Það yrði gífurlegt högg fyrir áframhaldandi söguþráð Marvel því búið er að stilla Spiderman upp sem einni af aðalofurhetjum framtíðarmynda Marvel-heimsins.