Innlent

Borgarfulltrúar vilja lækka hámarkshraða á Reykjavegi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Reykjaveginum í Laugarneshverfi.
Frá Reykjaveginum í Laugarneshverfi. Vísir
Svo gæti farið að hámarkshraði á Reykjavegi í Laugarneshverfi Reykjavíkur verði lækkaður úr 50 kílómetra hámarkshraða í 30 ef borgarfulltrúar sem búa í grennd við veginn fá einhverju ráðið.

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, bar þessa tillögu upp í Facebook-hópi sem ætlaður er íbúum Laugarneshverfis. Katrín er í samgöngu- og skipulagsráði borgarinnar og hefur skoðað Reykjaveginn sérstaklega þar sem hann stendur henni nærri.

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Á Katrín barn sem er að byrja í skóla og þarfa að fara yfir Reykjaveginn mörgum sinnum í viku eins og fjöldi annarra barna. Hún bendir á að það hafi verið rætt í mörg ár að gera leiðina við Reykjaveginn betri fyrir gangandi.

Katrín segir það vekja furðu sína að hámarkshraði á veginum sé að hluta 50 kílómetrar á klukkustund og spyr hvort íbúar í Laugarneshverfi séu ekki flestir sammála því að það færi betur á að hámarkshraði væri 30 kílómetrar á klukkustund á veginum öllum.

Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Margir hafa blandað sér í umræðuna og lang flestir þegar þetta er ritað sammála Katrínu.

Þar á meðal Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borginni, sem vill þar að auki að hámarkshraði á öllum götum Laugarneshverfisins verði 30 kílómetrar á klukkustund.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Pírati, sem er formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, segir tillögu Katrínar vera borðleggjandi og að hún verði tekin upp á næsta fundi ráðsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×