Körfubolti

LeBron James er örvhentur en valdi að nota hægri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James með boltann í vinstri.
LeBron James með boltann í vinstri. Getty/John W. McDonough
LeBron James hefur verið einn allra besti körfuboltamaður heims undanfarin sextán ár eða síðan að hann kom inn í NBA-deildina sumarið 2003. Það vita færri af því að hann er ekki að spila körfubolta með „réttri“ hendi.

LeBron James kom inn í NBA deildina sem stórstjarna enda hafði spilamennska hans með St. Vincent-St. Mary menntaskólanum gert hann að einum eftirsóttasta nýliða í körfuboltasögunni. Cleveland Cavaliers hafði heppnina með sér og fékk fyrsta valrétt. LeBron James skoraði 25 stig í fyrsta leik sínum í NBA og var seinna valinn nýliði ársins.

Á sextán tímabilum sínum í NBA hefur LeBron James verið með 27,2 stig, 7,4 fráköst og 7,2 stoðsendingar að meðaltali í 1198 deildarleikjum. Hann hefur auk þess spilað 239 leiki í úrslitakeppni og er með 28,9 stig, 8,9 fráköst og 7,1 stoðsendingu að meðaltali í þeim.

Það er vegna allrar þessarar velgengi á körfuboltavellinum í næstum því tvo áratugi sem nýjar fréttir af LeBron James koma svo mörgum á óvart.

LeBron James hefur sagt frá því að hann sé í raun örvhentur en hafi þvingað sjálfan sig í því að nota frekar hægri hendina. Hann sjálfur veit ekki alveg hvernig það kom til.



„Ég hef enga hugmynd um það hvernig ég varð rétthentur körfuboltamaður. Kannski var það vegna Michael Jordan, Penny Hardaway og fleiri leikmann sem ég horfði upp til þegar ég var að alast upp. Ég sá þessa leikmenn skjóta með hægri og ákvað því bara að nota hægri. Ég er samt örvhentur,“ sagði LeBron James en Basketball Forever síðan hefur þetta eftir honum eins og sjá má hér fyrir ofan.

Það er því bara rétt hægt að ímynda sér hvað LeBron James hefði gert ef hann hefði notað „rétta“ hendi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×