Innlent

Gekk á milli bíla og braut hliðarspegla

Birgir Olgeirsson skrifar
Talsverður erill var hjá lögreglu í dag.
Talsverður erill var hjá lögreglu í dag. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með 70 mál á sinni könnu frá því klukkan fimm í morgun og til fimm síðdegis í dag.

Rétt fyrir klukkan sex í morgun óskaði starfsfólk verslunar eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar á heyrnartólum. Sá sem grunaður var um þjófnaðinn sparkaði í öryggisvörð sem hafði afskipti af honum. Var maðurinn handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

Í hverfi 101 var tilkynnt um mann sem gekk á milli bíla og braut á þeim hliðarspegla. Þegar lögregla fann manninn var hann í annarlegu ástandi og með ýmsa muni í fangi. Síðar kom í ljós að þessi munir voru úr innbroti í fyrirtæki þar skammt frá. Var maðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Rétt fyrir klukkan eitt í dag barst lögreglu tilkynning um ökumann sem hafði ekið á umferðarskilti án þess að tilkynna það. Er ökumaðurinn ófundinn.

Þá var hljóðkerfi stolið úr gámi í Mosfellsbæ á ellefta tímanum í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×