Handbolti

Kristján Örn fer til Frakklands næsta sumar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Donni í leik gegn Stjörnunni.
Donni í leik gegn Stjörnunni. vísir/bára
Stórskytta ÍBV, Kristján Örn Kristjánsson eða Donni, mun yfirgefa eyjuna fögru næsta sumar því hann er búinn að semja við franskt úrvalsdeildarfélag.

Það heitir AIX Pauc og situr í sjötta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar eftir tvo leiki.

„Þetta er bolti sem fór af stað þegar við mættum þeim í Evrópukeppninni í október í fyrra. Þeir hafa verið að fylgjast með honum og buðu honum út í janúar til að skoða aðstæður. Fljótlega í kjölfarið fóru af stað samningaviðræður. Frakkarnir vildu fá hann strax í sumar en Donni ákvað að taka eitt tímabil í viðbót á Íslandi og klára samninginn við okkur,“ sagði Davíð Þór Óskarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍBV, við Eyjafréttir.

Skyttan magnaða skoraði 12 mörk í fyrsta leik ÍBV í Olís-deildinni og stefnir á að bæta sig mikið í vetur áður en hann heldur utan.

„Þetta er búin að vera mikil hvatning fyrir mig að bæta mig. Sérstaklega varnarlega. Ég er búinn að æfa mjög vel í sumar, lyfta mikið og huga vel að mataræði. Ég finn líka að ég er miklu öruggari í öllum mínum aðgerðum,“ sagði Donni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×