Flutningabílarnir einir og sér vöktu athygli í gær, enda ekki á hverjum degi sem sjö bílaflutningabílar á vegum hins franska Prevost Transports trufla umferð á Kringlumýrarbraut.
Sjá einnig: Lögðu sig í sjö flutningabílum á Kringlumýrarbraut
Fornbílarnir innaborðs voru alls 38 talsins og eru þeir í eigu belgískra og hollenskra bílaunnenda, sem virðast hafa notið akstursins ef marka má myndir og myndskeið sem fyrrnefnd ferðaskrifstofa hefur birt af ferðalaginu á netinu. Eins og sjá má af myndunum hér að neðan voru bílar á borð við Jaguar XK150DHC, árgerð 1960, Lagonda LG6, árgerð 1936, og Porsche 911, árgerð 1986 með í för.
Aukinheldur var þjónustubíll með í för, mannaður tveimur bifvélavirkjum, til að geta brugðist við ef eitthvað myndi bila í bílunum gömlu.
Að sögn ferðaskrifstofunnar verður Íslandsferðin endurtekin að tveimur árum liðnum. Íslendingar ættu því ekki að láta sér bregða þó þeir rekist á fjölda fornbíla, eða flutningabíla á Kringlumýrarbraut, sumarið 2021.