Réttarmeinafræðingar í Mexíkó hafa borið kennsl á 44 lík sem grafin voru í brunni í Jalisco ríki. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.
Líkin fundust rétt fyrir utan borgina Guadalajara en þau fundust í 119 svörtum pokum. Líkin fundust í byrjun septembermánaðar þegar íbúar á svæðinu fóru að kvarta undan slæmri lykt.
Jalisco ríki er miðstöð eins ofbeldisfyllsta eiturlyfjahrings Mexíkó og er í öðru sæti á þessu ári þegar kemur að líkfundum. Meirihluti líkanna
voru skorin niður sem olli því að yfirvöld þurftu að púsla saman líkamspörtum til að geta borið kennsl á líkin.
Enn hefur ekki verið borið kennsl á stóran hluta líkamshlutanna.
Samtök á svæðinu sem leita fólks sem hefur horfið hafa biðlað til yfirvalda að senda fleiri sérfræðinga til að hjálpa til við að bera kennsl á líkin.
Þau segja réttarmeinadeildina á svæðinu ekki hafa undan og búi ekki yfir nauðsynlegri þekkingu til að ljúka málinu.
Réttarmeinafræðingar bera kennsl á 44 lík sem fundust í brunni í Mexíkó
Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
