Haraldur Franklín Magnús endaði í 2. sæti á Lindbyvätten Masters-mótinu í golfi í Svíþjóð sem lauk í dag. Mótið er hluti af Nordic Golf-mótaröðinni.
Fyrir árangurinn góða á Lindbyvätten Masters fékk Haraldur 4508 stig og komst upp í 4. sætið á stigalista Nordic Golf-mótaraðarinnar.
Fjórða sætið myndi gefa Haraldi þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári. Samherji hans hjá GR, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, er þegar búinn að tryggja sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni 2020.
Þetta er í fjórða sinn sem Haraldur lendir í 2. sæti á móti á Nordic Golf-mótaröðinni í ár. Hann hefur alls leikið á 20 mótum.
Haraldur lék á tveimur höggum undir pari í dag. Hann fékk þrjá fugla og einn skolla á hringnum.
Haraldur lauk leik á 14 höggum undir pari. Hann var tveimur höggum á eftir sigurvegaranum Tobias Ruth frá Svíþjóð.
