Skoðun

Þarf súrefni 

Hörður Ægisson skrifar
Hún var ekki endilega mjög björt, myndin sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gylfi Zoega hagfræðiprófessor drógu upp á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær. Þrátt fyrir gjaldþrot WOW air og loðnubrest gera hagvaxtarspár ráð fyrir aðeins 0,2 prósenta samdrætti í ár og að á næsta ári verði vöxturinn um tvö prósent. Seðlabankastjóri óttast hins vegar að þessi sviðsmynd kunni að reynast of bjartsýn, einkum þar sem blikur séu á lofti í heimshagkerfinu, og að „óvissan sé niður á við, að þetta sé of gott til vera satt“, útskýrði Ásgeir. Þá benti Gylfi á erfiða stöðu ferðaþjónustunnar, sem væri með of mikinn launakostnað, og að hættan væri sú að það yrðu ekki aðeins veikari fyrirtækin sem myndu lenda í hremmingum.

Það voru hins vegar ummæli Gylfa um Icelandair sem vöktu mesta athygli. Þar bað Gylfi, sem mætti á fundinn í krafti setu sinnar í peningastefnunefnd, þingmenn um að fylgjast vel með stöðu Icelandair. „Ef við reiknum fram í tímann, hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig?“ spurði Gylfi, og sagði að ekki „mætti veðja þjóðarbúinu á“ að Icelandair fái bætur frá Boeing. „Þetta er eitthvað sem þið verðið að huga að.“ Áhyggjur af fjárhagsstöðu Icelandair eru réttmætar en setja má spurningarmerki við að fulltrúi Seðlabankans setji þær fram með slíkum hætti opinberlega. Erfitt er að sjá hvað stjórnmálamenn geta gert þegar kemur að erfiðleikum í rekstri flugfélagsins. Engin ástæða er til að ætla annað en að stjórnendur Icelandair vinni nú fullum fetum að því að styrkja fjárhag félagsins á óvissutímum.

Þrátt fyrir hremmingar í ferðaþjónustu hefur atvinnuleysið ekki aukist eins mikið og margir óttuðust. Hætt er við að það kunni að breytast. Mörg fyrirtæki hafa frestað hagræðingaraðgerðum en að lokum kemur að skuldadögum sem munu birtast í vaxandi atvinnuleysi. Sögulega séð hefur gengisfall ávallt verið fylgifiskur efnahagssamdráttar, sem hefur þá um leið gefið útflutningsgreinum viðspyrnu, með þeim afleiðingum að verðbólga hefur aukist og vextir hækkað. Nú er öldin önnur. Sterk staða þjóðarbúsins og 800 milljarða gjaldeyrisforði eykur tiltrú á stöðugleika krónunnar og gefur Seðlabankanum færi á að halda verðbólgu við markmið. Það er samt alltaf einhver fórnarkostnaður. Atvinnuleysi gæti þannig orðið meira en við höfum oft áður vanist þegar kreppir að í efnahagslífinu.

Stjórnvöld hafa tæki og tól til að milda hagsveifluna. Seðlabankinn hefur gert sitt, vextir hafa lækkað úr 4,5 prósentum í 3,5 prósent, en meira þarf til. Fjármagn er af skornum skammti og bankakerfið á bremsunni. Frekari vaxtalækkanir einar og sér laga það ekki. Tvennt mætti gera til að bæta þar úr. Ákvörðun um hækkun sveiflujöfnunaraukans ofan á eiginfjárkröfur bankanna, sem tekur gildi í ársbyrjun 2020, var misráðin enda mátti vera ljóst að hagkerfið væri að kólna. Nýr seðlabankastjóri hlýtur að leggja áherslu á að leiðrétta þau mistök. Þá ætti að girða fyrir að Íbúðalánasjóði verði heimilt að ráðstafa umtalsverðu lausafé sínu í innlánum í Seðlabankanum. Það fé þyrfti þá að leita í aðra fjárfestingarkosti sem væri til þess fallið að auka framboð lánsfjármagns. Það er ekki eftir neinu að bíða. Hagkerfið þarf á súrefni að halda nema markmiðið sé að kæfa það.




Skoðun

Sjá meira


×