Fótbolti

Emil: Mín mál hafa gengið hægar en ég reiknaði með

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland mætir Frakklandi á föstudag og Andorra á mánudag í mikilvægum leikjum í undankeppni EM 2020. Í hópnum sem fyrr eru þeir Emil Hallfreðsson og Birkir Bjarnason en þeir eru báðir án félags og hafa verið síðan í sumar.

„Ég er rosalega duglegur að æfa og hef verið duglegur þessar vikur sem eru liðnar frá síðasta landsliðsverkefni - bæði með FH og ég sjálfur,“ sagði Emil sem gæti fengið það hlutverk að leysa Aron Einar Gunnarsson af hólmi. Aron Einar meiddist nýverið illa á ökkla.

„Mér líður mjög vel í líkamanum og mjög ánægður að fá traust og vera valinn í þetta verkefni. Ég ætla að borga það til baka. Ég mun alltaf segja já við landsliðið,“ sagði Emil sem hefur líka æft með Birki síðustu vikurnar.

„Við höfum tekið vel á því og höfum einbeitt okkur að því að vera í standi. Við vildum auðvitað fá okkar mál á hreint en hvað mig varðar hefur það gerst hægar en ég hélt, ef ég segi alveg eins og er.“

Emil vonast auðvitað til að finna sér félag sem fyrst en ætlar ekki að stökkva á hvaða tilboð sem er.

„Þau tilboð sem ég hef fengið hingað til hefur mér ekki litist á og maður verður þá að bíða eins rólegur eins og hægt er.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×