Þar hafði dýragarðurinn Shang Feng Ocean World hafði verið heimkynni þeirra í áratug eða allt frá því að þær voru handsamaðar í rússneskri lögsögu og hnepptar í ánauð.
„Aðlögunarferli þeirra hefur gengið aðeins hægar en við ætluðum en allt hefur þó gengið vel. Systurnar eru duglegar að éta og þeim virðist líða mjög vel. Við erum smátt og smátt byrjuð að kæla vatnið þeirra svo það líkist sem mest því sem þær eiga í vændum í Klettsvík,“ segir Audrey Padgett, starfsmaður Sea Life-sjóðsins og talsmaður verkefnisins hér á landi.
Að sögn Audrey reiknar hún með því að mjöldrunum verði sleppt í hina sérútbúnu sjókví á vormánuðum 2020 en upphaflega var gert ráð fyrir að það myndi gerast í september á þessu ári.

Að hennar sögn hefur ferlið verið afar lærdómsríkt og mun nýtast vel við næstu verkefni. „Við reiknum með að þetta verkefni verði hið fyrsta af mörgum slíkum,“ segir hún. Návígi Audrey við þessar tignarlegu skepnur er mikið og aðspurð segir hún fólk átta sig fljótt á að systurnar eru gjörólíkar að skapgerð. „Litla Grá er mun frakkari og forvitnari. Hún vill helst vera miðpunktur athyglinnar. Litla Hvít er meira til baka og vill fylgjast með úr hæfilegri fjarlægð,“ segir Audrey.
Audrey hefur dvalið í Vestmannaeyjum síðan í sumar og hlær dátt þegar blaðamaður spyr hana um hvernig hennar eigin aðlögun gangi. „Vestmannaeyingar hafa tekið mér afar vel. Þetta er stórkostlegur staður sem ég er heppin að fá að upplifa,“ segir Audrey og minnist sérstaklega á þátttöku sína í árlegum pysjubjörgunaraðgerðum. „Það var frábært ævintýri sem ég mun aldrei gleyma,“ segir hún.