Johnson sendi Jean-Claude Juncker, fráfarandi forseta framkvæmdastjórnar ESB, bréf í dag þar sem hann sagði málamiðlanir nauðsynlegar. Bæði bréfið og tillögurnar voru birtar í dag og snerust bæði skjölin einna helst um fyrirkomulag á landamærum Bretlands og Írlands.
Írland aðalmálið
Í útgöngusamningi ríkisstjórnar Theresu May, sem þingið felldi í þrígang, mátti finna þá varúðarráðstöfun að Norður-Írar þyrftu að hlýða áfram stærri hluta Evrópuregluverksins en aðrir Bretar til að fyrirbyggja sýnileg landamæri. Það er að segja ef sérstakt samkomulag um fyrirkomulagið næðist ekki. Þetta var ein helst ástæðan fyrir höfnun þingsins.
Norður-Írland myndi halda áfram að vera á innri markaðnum en ekki í tollasambandinu og norðurírska þingið fengi að ákveða á fjögurra ára fresti hvort það vildi halda í fyrirkomulagið.
Johnson hélt svo ræðu á landsfundi Íhaldsflokksins í Manchester í dag og sagði að vissulega væri um málamiðlun að ræða. „Ég vona það innilega að félagar okkar skilji að þeir þurfa líka að gera málamiðlanir. Vegna þess að ef okkur mistekst að ná samkomulagi vegna tæknilegrar umræðu um nákvæmt fyrirkomulag tollaeftirlits, þegar tækni á því sviði er að taka hröðum framförum, skulum við ekki velkjast í vafa um hver niðurstaðan verður. Þá göngum við út án samnings og það viljum við ekki.“
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, hafði ekki séð tillögurnar í heild þegar hann tjáði sig í dag. Sagði hins vegar að það sem hann hafi séð lofaði ekki góðu.