Óskar hefur leikið 99 leiki í röð í efstu deild, þar af 91 í byrjunarliði. Njarðvíkingurinn hefur leikið alla 22 deildarleiki KR undanfarin fjögur ár. Frá því hann varð þrítugur 22. ágúst 2014 hefur hann aðeins misst af einum deildarleik.
Það heyrir til undantekninga ef Óskar er tekinn af velli. Á undanförnum fjórum tímabilum hefur hann leikið 7798 mínútur af þeim 7920 mínútum sem í boði hafa verið.

Síðasti leikur Óskars í efstu deild þar sem hann var ekki í byrjunarliðinu en kom inn á sem varamaður var 13. september 2015 þegar KR og ÍA gerðu markalaust jafntefli á Akranesi.
Óskar missti af hálfu sumrinu 2011 vegna meiðsla og síðustu leikjunum árið eftir þegar hann var lánaður til Sandnes Ulf í Noregi. Síðan þá hefur hann varla misst af leik með KR.
Undanfarin sjö tímabil hefur Óskar aðeins misst af þremur deildarleikjum og leikið 151 leik af 154 mögulegum í efstu deild.

Birkir Kristinsson á metið yfir flesta leiki í röð í efstu deild, eða 198. Gunnar Oddsson er sá útileikmaður sem hefur náð flestum leikjum í röð (186).
Óskar hefur alls leikið 309 leiki í efstu deild. Aðeins Birkir hefur leikið fleiri (321). Ef Óskar helst heill og heldur áfram að spila alla leiki ætti hann slá leikjametið í efstu deild um mitt næsta sumar.