Erlent

Maður sem myrti fjölskyldu sína fannst á flugvelli eftir átta ára leit

Sylvía Hall skrifar
Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Xavier Dupont de Ligonnès árið 2011
Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Xavier Dupont de Ligonnès árið 2011 Vísir/AFP
Hinn 58 ára gamli Xavier Dupont de Ligonnès var handtekinn á Glasgow-flugvelli í dag eftir að hann lenti með flugi frá París. Ligonnes hefur verið eftirlýstur frá árinu 2011, grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína og fjögur börn þeirra. Sama ár var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum.

Í frétt BBC um málið segir að eftir fingrafaraskoðun hafi hann verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald. Flugvallarstarfsmenn í París höfðu orðið varir við hann þegar hann var á leið um borð í flug til Glasgow en hann ferðaðist undir fölsku nafni.

Í aprílmánuði árið 2011 fundust eiginkona hans og fjögur börn skotin til bana og grafin í garði fjölskyldunnar í úthverfi Nantes. Ekkert hafði spurst til fjölskylduföðursins síðan og var meðal annars gerð húsleit í frönsku klaustri eftir að sjónarvottar sögðust hafa séð til Ligonnès íklæddan munkakufli í klaustrinu.

Sjá einnig: Húsleit í frönsku klaustri vegna leitar að grunuðum fjöldamorðingja

Eiginkona Xavier, Agnès Dupont de Ligonnès, var 48 ára þegar hún var myrt og börnin Arthur, Thomas, Anne og Benoît tuttugu, átján, sextán og þrettán ára.

Ligonnès er sagður hafa myrt fjölskyldumeðlimi sína á skipulagðan hátt, sem líktist helst aftöku. Hann hafi skotið þau tveimur skotum í hausinn af stuttu færi áður en hann velti þeim upp úr óleskjuðu kalki. Því næst gróf hann þau í garði fjölskyldunnar.

Hann hafði áður tilkynnt kennurum barna sinna að þau hygðust flytja til Ástralíu og sagt vinum sínum að hann væri leyniþjónustumaður fyrir Bandaríkin og væri á leið í vitnavernd. Mikil leit var gerð að manninum eftir að lík fjölskyldumeðlimanna fundust og vöktu morðin mikinn óhug í Frakklandi.

Uppfært:

Maðurinn sem handtekinn var á flugvellinum í Glasgow í gær reyndist vera saklaus portúgalskur ferðamaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×