Fótbolti

Hamren: Aron var eyðilagður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ljóst er að Aron Einar Gunnarsson verður frá í talsverðan tíma eftir að hann gekkst undir aðgerð vegna slitins liðbands í ökkla. Aron Einar varð fyrir tæklingu í leik með Al Arabi í Katar og missir af þeim sökum af næstu landsleikjum Íslands.

Strákarnir okkar mæta Frökkum í undankeppni EM 2020 á morgun og ljóst er að þeir munu sakna Arons.

„Hann er fyrirliðinn okkar og gríðarlega mikilvægur leikmaður. Ekki bara inni á vellinum heldur líka í klefanum og á hótelinu. Hann er hávær og hefur mikla virðingu hjá okkur leikmönnum,“ sagði Gylfi Þór á blaðamannafundi KSÍ á Laugardalsvelli í morgun.

Erik Hamren, landsliðsþjálfari, var spurður hvort að hann hafi rætt við Aron Einar í síma eftir meiðslin.

„Nei, ég hef ekki talað við hann. Bara skipst á SMS-skilaboðum. Hann var eyðilagður eftir meiðslin og ég vildi gefa honum svigrúm. Ég mun ræða við hann eftir leikina.“

„Allir vita hvaða þýðingu það hefur fyrir hann að spila með íslenska landsliðinu og vonbrigðin eru eftir því,“ sagði landsliðsþjálfarinn á blaðamannafundinum.

Gylfi á ekki von á því að íslenska liðið breyti um leikstíl í fjarveru Arons.

„Það þarf að fylla í hans skarð og einhver mun fá tækifæri til þess í leiknum (gegn Frökkum) á morgun. Sá hinn sami þarf að nýta það. Aron spilar örugglega ekki í næsta verkefni heldur og sá sem spilar á morgun fær gullið tækifæri til að vinna sér sæti í liðinu næstu 2-3 leiki.“


Tengdar fréttir

Aron Einar fór undir hnífinn

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fór í aðgerð í morgun vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í leik með Al-Arabi á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×