Sport

Conor snýr aftur í búrið í janúar | Ætlar sér stóra hluti á næsta ári

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Conor McGregor er farið að leiðast þófið og ætlar að drífa sig aftur í búrið.
Conor McGregor er farið að leiðast þófið og ætlar að drífa sig aftur í búrið. vísir/getty
Bardagakappinn Conor McGregor var með blaðamannafund í Moskvu í morgun þar sem hann staðfesti endurkomu sína í búrið þann 18. janúar á næsta ári.

Þá mun Conor berjast í T-Mobile-höllinni í Las Vegas. Conor talaði ekki um hver yrði andstæðingur hans en líklegustu andstæðingarnir eru Donald Cerrone og Justin Gaethje. „Spyrjið UFC hver andstæðingurinn verður því mér er skítsama,“ sagði Conor á fundinum.

Conor var klár í að berjast við Frankie Edgar um miðjan desember en það gekk ekki eftir þar sem UFC hafði engan áhuga á þeim bardaga.





Írinn kjaftfori segist ætla að láta til sín taka á næsta ári og stefnir á þrjá bardaga. Hann vill mæta sigurvegaranum í bardaga Jorge Masvidal og Nate Diaz og einnig vill hann mæta sigurvegaranum í bardaga Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson.

Conor er mikill Rocky-aðdáandi og hefur óskað eftir því að berjast við Khabib í Moskvu ef hann fær annað tækifæri gegn Rússanum. Vill feta í fótspor Rocky Balboa sem lamdi Ivan Drago í Moskvu í Rocky IV.

Nú bíðum við frétta frá UFC um hver verður andstæðingur Írans í janúar en ljóst er að endurkoma hans mun hrista upp í UFC-heiminum.

Conor hefur ekki barist síðan hann tapaði fyrir Khabib í október í fyrra.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×