Gylfi Þór Sigurðsson var vitanlega svekktur með niðurstöðuna eftir jafntefli Tyrklands og Íslands í undankeppni EM 2020 í kvöld. Það þýðir að Ísland á ekki möguleika á að komast úr undankeppninni og verður að treysta á umspil í mars.
„Við vorum ekkert langt frá þessu í kvöld. Leikskipulagið gekk nokkuð vel upp. Við vorum inni í þessu fram á síðustu mínútu og það var það sem við vildum,“ sagði Gylfi við Óskar Ófeig Jónsson í Istanbúl í kvöld.
„Þetta var grátlega nálægt fyrir okkur. Höddi átti skallann sem var varinn á línu. En Tyrkir hafa verið mjög góðir í þessari undankeppni og eiga þetta skilið.“
Gylfi segir að upplegg þjálfaranna hafi gengið nokkuð vel upp, þó svo að meiðsli Alfreðs og Arnórs Ingva hafi sett strik í reikninginn. Báðir fóru meiddir af velli.
„Það riðlaði aðeins skipulaginu en þeir sem komu inn stóðu sig vel. Við ætluðum okkur að halda núllinu og setja pressu á þá í lokin - sú pressa hefði jafnvel mátt koma aðeins fyrr.“
Fram undan er umspil fyrir EM 2020 sem fer fram í mars. Þar verður Ísland nánast örugglega meðal þátttökuliða.
„Það er okkar eini séns núna og verður allt lagt í það. Lítið hægt að segja annað. Við ætlum að ná í þrjú stig á sunnudag og bíðum svo spenntir eftir næsta mótherja.“
Ísland fær heimaleik í undanúrslitum umspilsins, að minnsta kosti. „Við höfum verið sterkir á heimavelli og vonandi nýtum við okkur það og fáum svo annan heimaleik. Breiddin í hópnum er að verða betri, ungir leikmenn eru að koma inn og standa sig vel. Vonandi eru bara jákvæðir tímar fram undan og vonandi verður mars skemmtilegur mánuður fyrir okkur.“
