Ungstirnið Billie Eilish er einn vinsælasti tónlistarmaður heims. Hún er nýjasti gestur James Corden í Carpool Karaoke og hefur verið beðið eftir innslaginu með mikilli eftirvæntingu.
Það má með sanni segja að Eilish hafi ekki valdið vonbrigðum á rúntinum með Corden en saman sungu þau helstu slagara hennar.
Á rúntinum ræddi hún um ást sína á Justin Bieber sem hún hefur í raun elskað í mörg ár. Eilish lék á ukulele í bílnum og gerði það mjög vel.
Hún sagði sögu frá því þegar hún var lítil stúlka var regla á hennar heimili að hún þurfti ekki að fara að sofa á kvöldin ef hún var að semja tónlist.
Söngkonan bauð Corden á æskuheimilið sitt í Los Angeles þar sem hún býr enn þann dag í dag. Hún á ennþá sitt gamla herbergi og í því er mikil saga. Billie Eilish er aðeins 18 ára gömul en sló fyrst í gegn fyrir nokkrum árum.
Hún sýndi Bretanum einnig gæludýr sem hún á sem er könguló og hann var ekkert sérstaklega hrifinn. Móðir hennar ræddi stuttlega við Corden og úr varð mjög tilfinningarík stund.
Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.
Tilfinningaríkur rúntur Eilish sem fór með Corden á æskuheimilið þar sem hún býr
