Körfubolti

Liðsfélagar Michael Jordan hjá Chicago Bulls voru hræddir við hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Michael Jordan var óhræddur við það að láta félaga sína í Chicago Bulls heyra það og þá sérstaklega á æfingum liðsins.
 Michael Jordan var óhræddur við það að láta félaga sína í Chicago Bulls heyra það og þá sérstaklega á æfingum liðsins. Getty/Sporting News

Við fengum að vita meira um liðsfélagann Michael Jordan í sjöunda þættinum af „The Last Dance“ sem var frumsýndur í Bandaríkjunum í nótt.

Auk þess að fjalla um morðið á föður Jordan og hafnaboltaævintýrið í þætti sjö þá var einnig reynt að komast að því hvernig það var að spila í sama liði og besti körfuboltamaður heims.

Einn af þeim sem sögðu frá sinni upplifun af því að spila og æfa með Michael Jordan var litli framherjinn Jud Buechler sem var á bilinu 26 til 29 ára þegar hann spilaði við hlið MJ.

Michael Jordan var harður húsbóndi og setti mikla pressu á liðsfélaga sína. Það komst enginn upp með annað en gefa allt sitt hvort sem það væri á æfingum eða í leikjum.

„Fólk var hrætt við hann. Við vorum liðsfélagar hans og við vorum hræddir við hann. Þetta var bara ótti. Hræðslan við MJ var mikil,“ sagði Jud Buechler í þættinum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Jud Buechler kom til Chicago Bulls á meðan Michael Jordan vann upptekinn við það að spila hafnabolta en var með liðinu í þremur síðustu meistaratitlinum frá 1996 til 1998.

Jud Buechler spilaði alls 281 deildarleik með Chicago Bulls og var með 3,0 stig að meðaltali á 9,5 mínútum í leik. Tölur hans uppfærðar á 36 mínútur hefðu verið 11,3 stig, 5,6 fráköst og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Jud Buechler fór til Detroit Pistons frá Chicago Bulls eftir 1997-98 tímabilið og lék sinn síðasta leik í NBA-deildinni með Orlando Magic árið 2002.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×