Enginn lést af völdum kórónuveirunnar í Kína síðasta sólarhringinn í fyrsta sinn síðan í janúar, samkvæmt opinberum tölum frá heilbrigðisyfirvöldum þar í landi.
32 ný tilfelli greindust í Kína í gær, sem öll tengdust ferðalögum erlendis. Þá greindust þrjátíu til viðbótar, sem ekki sýndu einkenni, en stutt er síðan yfirvöld hófu að taka slík tilfelli með í tölum yfir smitaða.
Faraldurinn er í rénun í Kína þó að sýkingar hafi blossað upp að nýju í landinu síðustu daga, sem og í öðrum Asíuríkjum. Aftur hefur þurft að grípa til lokana í borginni Wuhan, þar sem veiran á upptök sín, til að stemma stigu við annarri bylgju faraldursins.
Boðað hefur verið að ferðabanni verði aflétt í borginni á morgun en lestarferðir til borgarinnar hafa verið leyfðar síðan í lok mars.
Tilfelli veirunnar á heimsvísu eru nú orðin vel rúmlega 1,3 milljónir, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins-háskólanum. Þá eru rétt tæplega 75 þúsund nú látnir úr veirunni, flestir á Ítalíu.