Fjöldi látinna vegna kórónuveirunnar í Langbarðalandi á Ítalíu, héraðinu sem á ensku kallast Lombardy, tvöfaldaðist næstum því á einum sólarhring. Ansa fréttaveitan á Ítalíu hefur eftir Giulio Gallera, heilbrigðisráðherra Langbarðalands, að 113 hafi dáið frá því í gær og í heildina hafi 267 dáið. Opinberar tölur í öllu landinu segja minnst 366 vera látna. Staðfestum smitum hefur fjölgað úr 5.883 í gær í 7.375.
Um það bil fjórðungur þjóðarinnar hefur svo til gott sem verið settur í sóttkví en strangt ferðabann hefur tekið gildi Langbarðalandi og fjórtán sýslum í mið- og norðurhluta landsins.
Skólum, sundlaugum, íþróttasölum og skíðasvæðum verður lokað og verða allar samkomur bannaðar, bæði á opinberum stöðum og í einkarými, segir Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. Aðgerðirnar munu standa til 3. apríl næstkomandi.
Aðgerðirnar á Ítalíu svipa mjög til aðgerða yfirvalda í Kína, þó þær þyki ekki jafn alvarlegar. Í Kína voru um 60 milljónir manna settir í sóttkví og eru það í rauninni enn.
Hvað verður um erlenda ferðamenn á Ítalíu er þó enn óljóst.
Sjá einnig: Loka Norður-Ítalíu og setja fjórðung Ítala í sóttkví vegna veirunnar
Páfinn, sem hefur verið með hefðbundið kvef, hélt messu í dag í beinni útsendingu í stað þess að vera á sjálfum og búið er að gefa út að Salvatore Farine, formaður herforingjaráðs Ítalíu, hefur smitast af Covid-19. Herforinginn sjálfur segir að honum líði vel.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, hrósaði Ítölum í dag og sagði þá vera að taka mikilvæg skref í að verja Ítalíu og heiminn.
The government & the people of are taking bold, courageous steps aimed at slowing the spread of the #coronavirus & protecting their country & . They are making genuine sacrifices. @WHO stands in solidarity with & is here to continue supporting you.https://t.co/Y2rkgUihtA
— Tedros Adhanom Ghebreyesus (@DrTedros) March 8, 2020