Einn greindist með kórónuveiruna síðasta sólarhringinn hér á landi, það fyrsta í viku, samkvæmt nýjum tölum á Covid.is. Staðfest smit eru því 1.803 talsins frá upphafi faraldursins. Þá eru virk smit á landinu fjögur.
Sá sem greindist var ekki í sóttkví en um er að ræða fyrsta smitið utan sóttkvíar í tvær vikur.
Enginn liggur inni á sjúkrahúsi með Covid-19 þessa stundina og hafa 1.789 náð bata. Fólki í sóttkví fjölgar hins vegar á milli daga annan daginn í röð, úr 727 í 828. Alls hafa nú 20.132 lokið sóttkví og 57.628 sýni verið tekin.
Tíu hafa látist af völdum veirunnar.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar klukkan 14:00 í dag. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara þar yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi. Gestur fundarins verður Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar.