Vinnumálastofnun hefur birt lista yfir hluta þeirra fyrirtækja sem gerðu samkomulag um minnkað starfshlutfall og nýttu þar með hina svokölluðu hlutabótaleið. Listinn var birtur eftir ákall um birtingu hans líkt og segir á vef stofnunarinnar.
Listinn inniheldur nöfn þeirra fyrirtækja sem staðfestu samkomulag við sex starfsmenn eða fleiri. Þó nýtti fjöldi fyrirtækja úrræðið fyrir færri starfsmenn; 2.950 fyrirtæki fyrir einn starfsmann, 1.138 settu tvo starfsmenn á hlutabótaleiðina, 568 fyrirtæki þrjá starfsmenn, 372 fyrirtæki fjóra og 245 fyrirtæki settu fimm starfsmenn á hlutabætur.
Hlutabótaleiðin hefur haft tilheyrandi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð og er talið að leiðin muni kosta tugi milljarða.
Á vef Vinnumálastofnunar segir að við birtingu listans vegist á mikilvægir hagsmunir sem stofnuninni er skylt að veita, það er réttur einstaklinga og vernd persónuupplýsinga, en einnig réttur almennings til upplýsinga um ráðstöfun á opinberu fé.