Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú voru á meðal þeirra sem mættu í skimun fyrir kórónuveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu í Turninum í Kópavogi í dag.
Guðni og Eliza tóku fram að þau væru ekki með nein einkenni. Þau væru tiltölulega nýkomin frá heimsókn til Póllands. Létt var yfir forsetahjónunum við skimunina.
Þúsundir Íslendinga bókuðu tíma í skimun eftir COVID-19 sjúkdómnum eftir að opnað var fyrir bókanir í gærkvöldi. Fljótlega þurfti að bæta við tímum vegna mikillar eftirspurnar. Tólf þúsund höfðu skráð sig klukkan níu í morgun.

Skimanir hófust klukkan tíu í morgun. Enn er hægt að bóka tíma í skimun á sérstakri skráningarsíða.
