Fjármálaráðherra var hvattur til þess á Alþingi í dag að kanna hvort Reykjavíkurborg væri að brjóta gegn kaupsamningi við ríkið um flugvallarland í Skerjafirði með því að útdeila lóðum þar í stað þess að selja þær á markaði. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins sagði „það samkomulag með stökustu ólíkindum, gert á milli ráðherra Samfylkingarinnar og borgarstjóra Samfylkingarinnar, þar sem ríkið gaf nánast eða seldi á mjög góðum kjörum land undan flugvellinum í Vatnsmýri, flugvelli sem er sameign þjóðarinnar“.

Sigmundur rifjaði upp að Reykjavíkurborg hefði í þeim samningi skuldbundið sig til að selja allar lóðir á svæðinu á markaði, enda ætti ríkið að fá hlutdeild í sölu landsins.
Sjá nánar frétt frá 2013: Samningar milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um kaup á landi ríkisins í Skerjafirði.
Borgin hefur sjálf skýrt frá því að hún hafi lofað stórum hluta lóða í nýja Skerjafirði undir félagslegar íbúðir.
„Og nú spyr ég hæstvirtan ráðherra: Hefur hæstvirtur ráðherra gert einhverjar breytingar á þessu eða einhverjir aðrir? Því að nú er Reykjavíkurborg byrjuð að útdeila þessu landi, - án þess að setja það á markað,“ sagði formaður Miðflokksins og ítrekaði spurninguna:
„Spurningin er einföld: Hefur verið gerð breyting á þessum samningi ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2013 þar sem kveðið er á um að þetta land skuli allt fara á markað?“
„Ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tímann komið inn á mitt borð að gera breytingar á umræddum samningi,“ svaraði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

„Þá vek ég hér með aftur athygli hæstvirts ráðherra á því að borgin virðist vera að fara á svig við samning sem hún gerði við ríkið árið 2013 og fullt tilefni fyrir hæstvirtan ráðherra og ríkisstjórnina að grípa þarna inn í,“ sagði Sigmundur Davíð og sagði að ríkið hefði mátt grípa inn í ótal fleiri mál gagnvart borginni.
„Nýjasta dæmið auðvitað, sem verið hefur í fréttum undanfarna daga, er af því þegar borgin hafði ákveðið að leggja veg í gegnum flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Eftir að þetta komst í hámæli reyndu menn að draga í land með það.
En fundargerðir og önnur gögn sýndu að borgin hafði einfaldlega ætlað sér að gera það sem hún vildi með þetta land. Þótt það þýddi að leggja þarna fyrirtæki í rúst, veikja innanlandsflugið og leggja veg í gegnum flugskýli,“ sagði formaður Miðflokksins.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: