Dómstóll í Rússlandi dæmdi í dag Bandaríkjamanninn Paul Whelan til sextán ára nauðungarvinnu eftir að hann var sakfelldur fyrir njósnir.
Whelan, sem er fyrrverandi landgönguliði í bandaríska hernum, var handtekinn á hótelherbergi í Moskvu í desember 2018. Í fórum hans fannst minniskubbur með leynilegum nafnalista.
Whelan neitaði sök í málinu og taldi kubbinn innihalda ljósmyndir úr ferðalögum.
Fjölskylda Whelan sagði á sínum tíma að Whelan hafi verið í Rússlandi vegna brúðkaups og hann hafi reglulega ferðast til landsins.
Þegar málið Whelan kom upp vakti það athygli hér á landi að myndin sem notuð var af Whelan í heimspressunni var tekin í Breiðafirði þar sem sást til Klakkeyja og Hrappseyjar.