Guðni Th. Jóhannesson forseti segir ekki í sínum verkahring að gefa út yfirlýsingar um lögleiðingu kannabisefna. Hann segir í viðtali í hlaðvarpi Skoðanabræðra að hann sé á móti vímuefnum.
Forsetinn var spurður hvort hann hefði einhvertímann reykt kannabis.
„Nei, aldrei á ævinni. En ég hef drukkið og dottið í það, en ég er löngu hættur slíku,“ segir Guðni.
„Ég er á móti vímuefnum og neyti áfengis mjög í hófi. Mér finnst allt í lagi að fá mér eitt vínglas, en er þeim kostum búinn að um leið og ég finn á mér vil ég ekki stakan dropa í viðbót,“ sagði Guðni í viðtalinu.
Tók vel í að smakka ananas á pitsur
Í hlaðvarpinu ræddi Guðni einnig ananasmálið umtalaða, þegar hann sagði á fundi í menntaskóla að sem forseti ætti hann kannski að banna ananas á pitsur. Það komst í heimsfréttirnar. Guðni segist ekki hafa tekið málið alvarlega, heldur þótt það innilega skemmtilegt.
Þáttastjórnendur hvöttu hann til þess að gefa ananasinum tækifæri og Guðni tók vel í það.
„Þá verður það eins og maður segir við börnin sín. Þú verður að prófa,“ segir hann.
Bræðurnir Bergþór og Snorri Másson halda úti hlaðvarpinu og fjalla þar um samfélagsmál og menningu í hverri viku. Þeir fá til sín gesti af ýmsum toga og inna þá eftir skoðunum þeirra á hinu og þessu. Í þættinum með Guðna ræddu þeir í löngu viðtali allt frá áhrifavöldum á Instagram og kannabisefnum til kulnunnar í starfi og persónulegrar rútínu forsetans.
Hér að neðan er hægt að hlusta.