Í dag verður hönnunarverkið Torg í spegli afhjúpað á Lækjartorgi. Hönnuðir verksins eru Arnar Ingi Viðarsson og Valdís Steinarsdóttir og er það hluti af HönnunarMars 2020. Torg í Speglun er hönnunarverk sem þjónar hlutverki almenns áningarstaðar og sem innsetningarverk sem brýtur upp sjónlínur áhorfendans.
„Þetta er innsetningarverk sem kemur aðallega út frá því hvernig maður upplifir borg sína og hvernig maður gerir bæði fallegt hönnunarverk, eða listaverk, sem er fallegur áningarstaður og líka tákn fyrir eitthvað. Þessi hugmynd kemur frá mörgum áttum, meðal annars á stúdíu á formum en líka hvernig maður myndi gera hlið á nýjan hátt, hlið sem maður hefur aldrei séð áður. Núna er hægt að hugsa þetta sem hlið á milli Bankastrætis og Austurstrætis,“ segir Arnar Ingi í samtali við Vísi.
Speglalistaverkið er sex metrar á hæð, fjórir metrar á lengd og fjórir metrar á breidd. Verkefnið er unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg og Torg í biðstöðu. HönnunarMars er formlega settur í dag og því verður verkið afhjúpað á Lækjartorgi klukkan 18:30.
„Hugmyndin kemur úr vangaveltum um sjálfsímyndir og borgarahegðun. Hvernig er hægt að stuðla að jákvæðri upplifun og samheldni með útihúsgögnum fyrir almenning? Hvernig nota má áningarstaði í almenningsrýmum til að endurspegla fallegt borgarumhverfið og fólkið sem þar er að finna og á sama tíma hanna verk sem er einstakt í borgarumhverfi sínu?“
Verkið speglar nærumhverfi sitt og þá einstaklinga sem verkið skoða og geta þar af leiðandi á horfendur upplifað sjálfa sig og umhverfið á nýjan hátt frá mismunandi sjónarhornum.
„Þannig er verkinu ætlað að opna á samtal um mikilvægi jákvæðrar sjálfsmyndar og einkennis borgara í borg sinni. Pælingin er að áhorfandinn sé stór hluti af verkinu því þetta er allt úr speglastáli,“ segir Arnar Ingi.

Í hönnun verksins er notast við stílhrein, sterk, geometrísk form sem standa á sterkum grunni með endurspeglandi yfirborði.
„Verkið er unnið í með það í huga að efniðviður þess sé ríkjandi upplifun verksins, og notast við einföld form þar sem formfesta nýtur sín. Það er því von hönnuða að þannig fái bæði hönnun, form og hráefni að njóta sín eins og best verður á kosið,“ segir um listaverkið.
„Við erum bara tveir hönnuðir og erum að fara út fyrir okkar þægindarramma. Við erum að prófa hér eitthvað sem er bæði erfitt og skemmtilegt,“ segir Arnar Ingi að lokum.