Knattspyrnusamband Evrópu er nú í óðaönn að setja saman leikjaplan landsliða eftir kórónufaraldurinn. Fór allt úr skorðum í kjölfar þess að landamærum var lokað eftir að faraldurinn skall á og þurfa landslið álfunnar því að leika þéttar en vanalega.
Því munu þrír leikir fara fram á Laugardalsvelli í október. Raunar er það svo að leikirnir þrír fara fram á sex daga tímabili. Þetta kemur fram á vef KSÍ í dag.
Þann 8. október koma Rúmenar í heimsókn í umspili fyrir Evrópumótið sem fram fer næsta sumar. Vinni Ísland þann leik þá tekur við annars umspilsleikur í nóvember sem sker úr um hvaða lið fer á mótið.
Þann 11. október koma Danir í heimsókn hingað til lands þegar Þjóðadeildin fer aftur af stað. Aðeins þremur dögum síðar mæta Belgar á Laugardalsvöll en það er ljóst að vallarstarfsmenn munu hafa nóg að gera þessa vikuna.

Í nóvember tekur annað eins við en að þessu sinni á útivelli. Fari svo að Ísland leggi Rúmeníu þá mætum við Búlgaríu eða Ungverjalandi ytra þann 12. nóvember. Þaðan myndi leiðin liggja til Danmerkur en sá leikur fer fram 15. nóvember og myndi ferðalagið enda í Englandi þann 15. nóvember.
8. október: Ísland - Rúmenía (umspil fyrir EM)
11. október: Ísland - Danmörk 18:45 (Þjóðadeild)
14. október: Ísland - Belgía 18:45 (Þjóðadeildin)
12. nóvember: Úrslitaleikur umspilsins fyrir EM
15. nóvember: Danmörk - Ísland 19:45 (Þjóðadeild)
18. nóvember: England - Ísland 19:45 (Þjóðadeild)