Óheimilt er að flagga fána Suðurríkjanna á herstöðvum Bandaríkjanna eftir að nýjar verklagsreglur voru gefnar út af Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Pentagon.
Varnarmálaráðherrann, Mark Esper, sendi frá sér minnisblað þar sem hann hvatti herlið til að flagga Bandaríska fánanum og sagði að aðrir fánar „verði að vera í samræmi við gildi bandaríkjahers, aga og skipulag, koma fram við alla af virðingu og að hafna táknum sundrungar,“ skrifaði Esper.
Með minnisblaðinu fylgdi listi af fánum sem leyfilegt er að flagga auk þess Bandaríska. Þar á meðal eru fánar ríkja Bandaríkjanna og hersveita, fánar vinaþjóða Bandaríkjanna auk alþjóðastofnana svo sem NATO.
„Fánar eru mikilvæg tákn, sérstaklega í hersamfélaginu. Fánar tákna sameiginleg verkefni, sögu og samband stríðsmanna,“ skrifaði Esper.
Fána Suðurríkjanna er ekki að finna á listanum yfir þá fána sem hermenn mega flagga. Ákveðnar deildir Bandaríkjahers, svo sem sjóherinn og landgöngulið, hafa þegar stigið skref í átt að því að fáninn verði bannaður.