Samninganefndir Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands funda í húsnæði Ríkissáttasemjara í kvöld, samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu.
Hvorki Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari né Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem fara með viðræðurnar fyrir hönd Icelandair, hafa viljað staðfesta þetta við fréttastofu.
Í gær tilkynnti Icelandair um ákvörðun sína um að slíta kjaraviðræðum við Flugfreyjufélagið. Öllum flugfreyjum og þjónum félagsins yrði því sagt upp.
Í tilkynningu frá félaginu kom fram að Icelandair gerði ráð fyrir að snúa sér til annars samningsaðila á vinnumarkaði hérlendis.
Kjaraviðræður Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands hafa staðið yfir undanfarna mánuði. Samningur milli félaganna var undirritaður 25. júní en var kolfelldur í atkvæðagreiðslu FFÍ nú í júlí. Forsvarsmenn Icelandair hafa lagt áherslu á að samningar þurfi að nást við stéttarfélög starfsmanna fyrir hlutafjárútboð sem stefnt er að á næstu vikum.
Þegar hefur verið samið við flugmenn og flugvirkja en í tilkynningu Icelandair segir að það sé mat félagsins að ekki verði lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Þeim hafi því verið slitið og öllum flugfreyjum sem starfa hjá félaginu sagt upp.
Fréttin hefur verið uppfærð.