Verslunarkeðjan Walmart mun loka verslunum sínum á Þakkargjörðardaginn í ár og þar með fresta opnun hins alræmda útsöludags, Svarta föstudags (e. Black Friday). Þakkargjörðardagurinn er haldinn hátíðlega ár hvert í Bandaríkjunum fjórða fimmtudag nóvember mánaðar en daginn eftir er Svarti föstudagur svokallaður, en þá eru iðulega miklar útsölur í verslunum vestanhafs.
Þetta tilkynnti Walmart í dag en það hefur verið áralöng hefð hjá verslunarkeðjunni að bjóða upp á miklar útsölur, Svarta föstudag, ár hvert og hafa útsölurnar alla jafnan hafist að kvöldi Þakkargjörðardags hjá Walmart.
Walmart hefur undanfarin ár opnað verslanir sínar á venjulegum opnunartíma á Þakkargjörðardaginn og lokað þeim hluta verslananna sem geyma útsöluvarninginn þar til Svarta föstudags salan hefst um kvöldið. Í fyrra hófst útsalan hjá Walmart klukkan 6 að kvöldi Þakkargjörðardags. Útsalan dregur vanalega til sín fjölda fólks enda um mikil tilboð að ræða.
Undanfarin ár hefur Walmart verið harðlega gagnrýnt fyrir að hafa verslanir sínar opnar á Þakkargjörðardaginn og leyfa þar með starfsmönnum sínum ekki að njóta hátíðarinnar með fjölskyldum sínum. Fjöldinn allur af verslunum hefur á undanförnum árum lokað verslunum sínum á Þakkargjörðardaginn.
Í tilkynningu frá Walmart segir að ákvörðunin hafi verið tekin til að koma til móts við starfsmenn verslunarkeðjunnar svo að þeir geti varið hátíðinni með sínum nánustu.