Nú þegar vika er í fyrsta risamót ársins í golfi virðist Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka óárennilegur en þrátt fyrir meiðsli í hné fór hann á kostum á fyrsta hring móts í Memphis í gær.
Koepka er efstur eftir fyrsta hring á FedEx St. Jude mótinu eftir að hafa leikið á 62 höggum, eða átta höggum undir pari vallarins. Hann fékk níu fugla og einn skolla, og jafnaði sinn besta árangur á einum hring á PGA-mótaröðinni. Koepka vann mótið í fyrra.
„Þetta er í fyrsta sinn þar sem að mér líður eins og ég viti hvar ég get klikkað, ég veit hvenær kylfan er á réttum stað, og ég veit hvort að púttstrokan er góð,“ sagði Koepka, ánægður með hvernig honum hefur gengið með þjálfurunum Claude Harmon og Pete Cowen.
Looking to go back-to-back.@BKoepka has made a habit of defending titles.
— PGA TOUR (@PGATOUR) July 31, 2020
He leads by two at the @WGCFedEx. pic.twitter.com/vnYWgedRkh
„Þetta er bara vegna vinnunnar sem við höfum lagt á okkur síðustu þrjár vikur. Endalaust af klukkutímum í að slá boltann og vera á púttflötinni,“ sagði Koepka.
Tiger Woods er ekki með á mótinu en hann kvaðst taka þá ákvörðun með PGA meistaramótið í næstu viku í huga. Eftir að hætta þurfti við The Players í mars og The Open í Bretlandi í júlí verður PGA meistaramótið fyrsta risamót kórónuveiruársins 2020.
Koepka er með tveggja högga forskot á Rickie Fowler og Brendon Todd. Efsti maður heimslistans, Jon Rahm, er aðeins í 36. sæti á pari, og Rory McIlroy er enn neðar á 3 höggum yfir pari.