Íslenski boltinn

Nóg að spila tvo þriðju af mótinu til að krýna Íslandsmeistara

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik er með fullt hús stiga og hefur ekki fengið á sig mark í Pepsi Max-deildinni en spila þarf sex umferðir í viðbót til að liðið eigi möguleika á að verða Íslandsmeistari.
Breiðablik er með fullt hús stiga og hefur ekki fengið á sig mark í Pepsi Max-deildinni en spila þarf sex umferðir í viðbót til að liðið eigi möguleika á að verða Íslandsmeistari. VÍSIR/BÁRA

Fari svo að ekki verði hægt að klára Íslandsmótið í fótbolta í ár vegna kórónuveirufaraldursins hefur KSÍ sett viðmið um hvað þurfi til að Íslandsmeistarar verði krýndir.

Samkvæmt sérstakri reglugerð sem stjórn KSÍ samþykkti fyrr í þessum mánuði mun duga að 2/3 hluti leikja tímabilsins hafi verið spilaðir í Pepsi Max-deildunum til að meistarar verði krýndir. Hið sama á við varðandi hvort lið falla eða fara upp um deildir.

Íslandsmótið er í óvissu vegna kórónuveirufaraldursins en vegna hertra aðgerða stjórnvalda hefur KSÍ frestað leikjum fullorðinna til 5. ágúst hið minnsta, sem hefur meðal annars áhrif á keppni í efstu deildum.

Náist ekki að klára keppni mun meðalfjöldi stiga ráða röðun liða, hafi að minnsta kosti 2/3 hluti heildarfjölda leikja verið spilaður.

Takist ekki að ljúka 2/3 hluta leikja munu lið viðkomandi deildar spila í sömu deild á næsta ári.

Spila þyrfti tæplega fimm heilar umferðir í viðbót til að Íslandsmeistarar kvenna yrðu krýndir en í Pepsi Max-deild karla þyrfti að spila sex heilar umferðir og tvo staka leiki til viðbótar, til að mótið gilti.

KSÍ og UEFA gætu ákveðið hvaða lið fengju Evrópusæti

Öllum leikjum á Íslandsmótinu skal vera lokið eigi síðar en 1. desember, og það er einnig lokadagurinn til að ljúka bikarkeppnunum. Takist ekki að ljúka bikarkeppnum verður vitaskuld ekki krýndur bikarmeistari, og mun þá lið í 4. sæti Pepsi Max-deildar karla komast í Evrópukeppni verði Íslandsmótinu ekki aflýst.

Verði Íslandsmótinu aflýst mun KSÍ í samráði við UEFA ákveða hvernig sætum í Evrópukeppnum verður ráðstafað.

Reglugerðina má finna hér . Hún fellur úr gildi 31. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×