Líkt og með Íslandsmótið í golfi þá verður engin frestun á hinu árlega golfmóti Einvígið á Nesinu sem fram fer á Seltjarnarnesi á frídegi verslunarmanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Golfsambandi Íslands.
Er þetta í 24. skipti sem mótið er haldið og að venju er tíu bestu kylfingum landsins boðið að taka þátt. Um góðgerðar mót er að ræða og mun allur ágóði mótsins renna til Covid-deildar Landspítala Íslands.
Engir áhorfendur verða leyfðir á mótinu.
„Í fyrsta skipti í sögu mótsins hefur ekki náðst að fá beinan styrktaraðila að mótinu sem rekja má til ástands í þjóðfélaginu undanfarna mánuði. Stjórn klúbbsins hefur tekið þá ákvörðun að halda mótið engu að síður og þá eingöngu í nafni Nesklúbbsins. Þannig verður tekið á móti frjálsum framlögum frá félagsmönnum sem og öllum kylfingum, öðrum landsmönnum og fyrirtækjum sem vilja styrkja Covid-deild Landspítala Íslands,“ segir í tilkynningu frá Golfsambandinu.
Keppendur mótsins í ár
Andri Þór Björnsson
Axel Bóasson
Björgvin Sigurbergsson
Bjarki Pétursson
Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Haraldur Franklín Magnús
Hákon Örn Magnússon
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafur Björn Loftsson
Guðmundur Ágúst Kristjánsson sigraði mótið fyrir ári en mun ekki taka þátt að þessu sinni.