Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur í dag keppni á sínu fyrsta Íslandsmóti í golfi í fjögur ár eða síðan að hún tryggði sig inn á bandarísku atvinnumótaröðina í golfi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur leik klukkan 15.50 og er í mjög öflugum ráshópi með Íslandsmeistara tveggja síðustu ára, Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur og svo Ragnhildi Kristinsdóttur sem hefur verið lengi í hópi bestu kvenkylfinga hér á landi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir keppti síðast á Íslandsmótinu árið 2016 þegar það fór fram á Jaðarsvelli á Akureyri. Hún varð þá Íslandsmeistari í þriðja sinn á ferlinum og sett mótsmet með því að spila hringina fjóra á ellefu höggum undir pari.
Íslandsmótið í golfi fer að þessu sinni fram á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ og þó að Ólafía Þórunn sé í Golfklúbbi Reykjavíkur þá á hún sterkt tengsl við þennan völl.
„Hér í Mosfellsbæ fékk ég góð hvatningu á sínum tíma til að halda áfram í golfi. Ég hlakka því til að spila á Íslandsmótinu á þessum velli þar sem að golfferill minn byrjaði á sínum tíma,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur, í samtali við heimasíðu Golfsambands Íslands.
Íslandsmót 2020: Hlakka til að keppa á vellinum þar sem að ferilinn byrjaði - Golfsamband Íslands https://t.co/FvcOUu7Tw8
— Golfsamband Íslands (@Golfsamband) August 5, 2020
Ólafía Þórunn er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð alla leið inn á bandarísku LPGA mótaröðina og hún er til alls likleg á sínum gamla heimavelli á Íslandsmótinu í golfi 2020.
„Ég byrjaði í golfi hér hjá Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ. Hér fékk ég góða hvatningu þegar ég var ekkert sérstaklega ánægð með árangurinn hjá mér. Keppnisskapið var til staðar á þeim tíma og það var ekkert gaman að vera ekki góð og ná árangri. Þriðjudagsmótaröð barna – og unglinga hafði góð áhrif á mig. Hér fékk ég mín fyrstu verðlaun í golfi og þau sem héldu utan um barna – og unglingastarfið gerðu allavega það rétta í stöðunnni hvað mig varðar. Ég hélt áfram eftir að hafa fengið verðlaun á þessum mótum,“ segir Ólafía Þórunn en hún hefur þrívegis sigrað á Íslandsmótinu í golfi, 2011, 2014 og 2016.
Ólafía Þórunn segir að lokum að það verði skemmtilegt verkefni að glíma við Hlíðavöll án þess að vera með aðstoðarmann líkt og hefur tíðkast í keppnisgolfinu.
„Vegna Covid-19 eru engir aðstoðarmenn leyfðir. Ég kvíði því ekki, þar sem ég hef alltaf tekið mínar ákvarðanir sjálf úti á velli, og ég er í það góðu líkamlegu ástandi að það verður ekkert mál að ýta kerrunni á undan sér. Vonandi verður veðrið bara skaplegt þannig að við getum notið þess að leika golf við þessar aðstæður,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Það má lesa allt viðtalið hér.