Spænsku héruðin Galisía og Kanaríeyjar hafa ákveðið að banna reykingar á almenningssvæðum vegna ótta um frekari útbreiðslu kórónuveirunnar.
Nær bannið yfir reykingar á götum úti og inni á veitingastöðum og börum ef ekki er hægt að tryggja fjarlægðartakmarkanir. BBC greinir frá.
Yfirvöld í Galísíu í norð-austurhluta landsins tóku fyrst ákvörðunina og fylgdu Kanaríeyjarnar fljótt á eftir en á Spáni hefur veirunni vaxið ásmegin undanfarið og eru ný tilfelli að jafnaði yfir 1.500 á hverjum degi. Alls eru staðfest tilfelli á landinu um 330 þúsund.
Reykingar eru bannaðar á grundvelli þess að dropar geti fylgt með reyknum þegar blásið er frá sér við reykingar. Þar sé þá möguleiki á svokölluðu dropasmiti kórónuveirunnar.
Þá segja heilbrigðisyfirvöld í Galisíu að líkur á smiti séu meiri á meðal reykingafólks vegna snertinga við sígaretturnar og andlitsgrímur.