Hópi um hundrað stjórnarandstöðuþingmanna undir forystu Juans Guaidó, annar þeirra tveggja sem gera tilkall til embættis þingforseta, brutu sér leið í gegnum röð þjóðvarðliða og inn í þinghús Venesúela í dag. Þingfundi undir stjórn fulltrúa ríkisstjórnar Nicolásar Maduro forseta var þá nýlokið.
Guaidó var meinaður aðgangur að þinghúsinu á sunnudag þegar til stóð að greiða atkvæði um þingforseta. Stjórnarþingmenn sættu þá lags og kusu Luis Parra nýjan þingforseta í stað Guaidó. Stjórnarandstaðan hefur sakað Parra um „þinglegt valdarán“. Þingið er eina stofnun ríkisins sem Maduro hefur ekki haft stjórn á undanfarið.
Í krafti embættis síns hefur Guaidó gert tilkall til þess að vera talinn réttmætur forseti Venesúela þar sem Maduro hafi verið endurkjörinn með ólögmætum hætti árið 2018. Mörg vestræn og rómönsk amerísk ríki hafa viðurkennt Guaidó sem forseta.
Guaidó ætlaði að stýra þingfundi í dag þrátt fyrir atkvæðagreiðsluna í þinginu á sunnudag. Stuðningsmenn hans á þingi héldu atkvæðagreiðslu á skrifstofu stjórnarandstöðublaðs á sunnudag þar sem þeir sögðust hafa endurkjörið hann.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að Guaidó og þingmennirnir hafi komist í gegnum nokkra öryggispunkta á leið sinni að þinghúsinu en röð þjóðvarðliða í óeirðarbúningum lokaði leið þeirra inn í það. Eftir um þrjátíu mínútna orðaskak þröngvuðu þingmennirnir sér fram hjá vörðunum.
Þá var þingfundi undir stjórn Parra hins vegar lokið, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Parra hefur sagst ætla að leggja áherslu á að stofna nýja kjörstjórn sem á að hafa umsjón með frjálsum kosningum.