Teitur Örlygsson, einn sérfræðinga Domino's Körfuboltakvölds, var ekki hrifinn af tveimur leikhléum Baldurs Þórs Ragnarssonar, þjálfara Tindastóls, í tapinu fyrir Keflavík, 95-84, í gær.
Baldur reyndi að vekja sína menn með þrumuræðum sem innihéldu vænan skerf af blótsyrðum.
„Án gríns strákar, hvað var ég að horfa á?“ spurði Teitur forviða í þætti gærkvöldsins eftir að hafa horft aftur á leikhléin.
„Mér finnst þetta bjánalegt. Þetta er leikur í deild í janúar og þú ert hársbreidd frá heilablóðfalli, taugaáfalli og öllum pakkanum.“
Teitur segir að svona aðferð virki ekki til lengri tíma.
„Þetta virkar aldrei aftur á leikmenn, að öskra svona á þá, fullorðna menn. Það voru allir hættir að hlusta á hann,“ sagði Teitur.
„Þetta virkar kannski einu sinni. En að öskra svona á fullorðna menn trekk í trekk. Ég myndi frekar labba út heldur en að láta tala svona við mig. Geymdu þetta fyrir bikarúrslitaleik eða úrslitakeppni þegar þú ætlar virkilega að tosa eitthvað upp úr hattinum.“
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
