Sandgerðisvegi hefur verið lokað vegna umferðaróhapps. Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar verður vegurinn lokaður um tíma vegna óhappsins. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum varð harður árekstur tveggja bíla sem komu úr gagnstæðri átt.
Tveir voru í öðrum bílnum og einn í hinum og voru allir þrír sendir með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Ekki hafa fengist nánari upplýsingar um líðan hinna slösuðu. Að sögn lögreglu verður vegurinn lokaður í hálftíma til eina klukkustund í viðbót á meðan vinna stendur yfir á vettvangi. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar tildrög slyssins.
Uppfært klukkan 17.45:
Búið er að opna fyrir umferð um Sandgerðisveg.
