Innlent

Samheldni og náungakærleikur lykilatriði í ófærðinni á Flateyri

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Katrín María Gísladóttir, kennari, segir að samfélagið á Flateyri sé afar samheldið. Það sé lykilatriði þegar ófært er í þorpinu eins og í dag. Borið hefur á vöruskorti.
Katrín María Gísladóttir, kennari, segir að samfélagið á Flateyri sé afar samheldið. Það sé lykilatriði þegar ófært er í þorpinu eins og í dag. Borið hefur á vöruskorti. Katrín María

Lokað hefur verið fyrir umferð um Flateyrarveg, meira og minna, frá því á föstudag vegna ófærðar og snjóflóðahættu. Fjöldi íbúa á Flateyri, þar sem fannfergi er gríðarlegt, er fastur heima hjá sér og nú er svo komið að borið hefur á vöruskorti.

Katrín María Gísladóttir, kennari í Grunnskólanum á Flateyri, er í dag föst heima hjá sér ásamt þriggja ára dóttur sinni og sambýlismanni.

Hún er barnshafandi og komin rúma sjö mánuði á leið en næsta sjúkrahús er á Ísafirði. Þrátt fyrir að hafa engar raunverulegar áhyggjur af því að fara af stað í fæðingu segist hún finna til innilokunarkenndar.

Katrín segir að íbúar á Flateyri hafi fyrir helgi búið sig vel undir óveðrið og að flestir hafi ráðist í stórinnkaup á föstudag. Ófærð og lokanir hafi þó varið lengur en íbúar hafi almennt reiknað með.

„Það er farið að tæmast í búðinni og fólk að verða uppiskroppa með mat fyrir dýrin og þurrmjólk fyrir börnin. Þetta er farið að verða svolítið langur tími,“ segir Katrín.

Katrín segir að náungakærlegur og samheldni séu lykilatriði í þorpinu á stundum sem þessum. Sambýlismaður Katrínar er formaður björgunarsveitarinnar á svæðinu en björgunarsveitarfólk hefur haft þýðingarmikið hlutverk í óveðrinu sem geisað hefur undanfarna daga. Það hefur komið fólki á milli staða, nauðsynjavörum til fólks og í gær var börnum ekið til og frá leikskóla.

„Það er náttúrulega brjáluð samheldni í samfélaginu. Allir tala saman, hjálpast að, lána og hoppa á milli staða og að gera allt sem þarf. Í gær hjálpaði matráðurinn úr skólanum rekstraraðilum sjoppunnar að baka hamborgarabrauð svo hægt væri að fá sér sjoppu-borgara því það var ekkert mikið eftir af mat í bænum. Allir gera allt sem þeir geta, það eru allir jákvæðir. Það er ekki enn orðið neitt stress eða vesen, strax allavega,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Örfá hús á norðanverðum Vestfjörðum í hættu vegna snjóflóða

Á Vestfjörðum hefur snjóað talsvert undanfarna daga en norðaustan hríð er spáð alveg fram á miðvikudag. Mestur verður vindurinn og ofankoman í dag og fram á þriðjudag. Fyrir er talsvert fannfergi í fjöllum sem er lagskipt eftir mismunandi vindáttir og hitabreytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×