Öll lönd og svæði heims eru skilgreind sem áhættusvæði frá og með 19. ágúst næstkomandi. Íbúum hér á landi er ráðið frá ferðalögum á áhættusvæði en fram til 19. ágúst eru aðeins Danmörk, Finnland, Færeyjar, Grænland, Noregur og Þýskaland undanskilin því að flokkast sem áhættusvæði.
Eftir þann tíma er ljóst að ekki er mælt með því að Íslendingar ferðist til annarra landa í ljósi þeirrar flokkunar sem tekur gildi.
Á vef Embættis landlæknis voru birtar í dag upplýsingar til ferðamanna varðandi sóttkví og kostnað vegna sýnatöku á landamærunum.
Þar segir að ferðamenn beri sjálfir gisti- og uppihaldskostnað á meðan sóttkví stendur, enda hafi þeir sjálfviljugir komið hingað til lands þrátt fyrir kröfu stjórnvalda um sóttkví. Þegar breytingar á fyrirkomulagi landamæraskimunar taka gildi næsta miðvikudag þurfa allir komufarþegar í tvær skimanir og 4-5 daga sóttkví.
Þá er mælt með því að allir sem koma hingað til lands eða eru staddir á landinu nái í rakningarappið Rakning C-19.
Undanþegin nýjum reglum um skimanir og sóttkví eru áhafnir flugvéla og flutningaskipa sem búsettar eru hér á landi og hafa fylgt sérstökum varúðarráðstöfunum í vinnuferð. Einnig eru þeir sem hafa sögu um Covid-19 sýkingu undanþegnir reglunum hafi sýkingin verið staðfest hér á landi.
Áhættusvæðin verða reglulega endurmetin og ákvörðun tekin um hvort einhver lönd flokkist ekki lengur sem skilgreind svæði með mikla smitáhættu.