Kansas City Chiefs fagnaði sínum fyrsta NFL-titli í hálfa öld í nótt þegar liðið vann 31-20 sigur á San Francisco 49ers í Super Bowl í Miami. Leikurinn var frábær skemmtun þar sem sigurvegararnir litu ekki alltof vel út þegar langt var liðið á lokaleikhlutann.
Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs og maður sem við Íslendingar þekkjum sem tengdason Mosfellsbæjar, gekk illa að finna sína menn framan af leik en setti í túrbú gírinn þegar leikurinn var að renna frá liðinu. Það voru töfrar þessa frábæra leikmanns sem gerðu útslagið og þetta gæti verið byrjunin á mögnuðum ferli þessa 24 ára leikmanns.
Sjá einnig: Nýjasta ofurstjarna NFL-deildarinnar gisti í blokk í Mosfellsbæ
Kansas City Chiefs skoraði 21 stig á síðustu rúmu sex mínútum leiksins og varð aðeins þriðja liðið í sögu Super Bowl til að vinna upp tíu stiga forskot í lokaleikhlutanum.
Patrick Mahomes sá líka að Chiefs settu annað met. Þetta var nefnilega í þriðja sinn í þessari úrslitakeppni þar sem Kansas City Chiefs lendir tíu stigum undir eða meira. Í öll skiptin fóru Patrick Mahomes og félagar á fulla ferð, snéru við leiknum á augabragði og unnu glæsilegan sigur. Mahomes er fyrsti leikstjórnandinn í sögu úrslitakeppni NFL sem afrekar slíkt þrisvar í sömu úrslitakeppni.
Patrick Mahomes skoraði sjálfur snertimark í fyrri hálfleik en það voru tvær snertimarkssendingar hans á síðustu sex mínútunum sem færðu Kansas City Chiefs sigurinn. Hann var að sjálfsögðu kosinn besti leikmaður úrslitaleiksins.
Jimmy Garoppolo, leikstjórnandi San Francisco 49ers, kastaði boltanum frá sér snemma leiks en í stað þess að missa sjálfstraust sýndi hann úr hverju hann var gerður og svaraði með frábærum leik í framhaldinu. Hann átti samt fá svör þegar kviknaði loksins á Mahomes undir lokin.
Damien Williams kórónaði frábæran leik sinn með sínu öðru snertimarki í lokin og munurinn á liðunum var því á endanum ellefu stig.
Andy Reid, þjálfari Kansas City Chiefs, vann því langþráðan NFL-titil, þann fyrsta á sínu 21. tímabili sem aðalþjálfari í deildinni.
Leikurinn bauð upp á það besta sem þessi íþrótt hefur að bjóða og sýndi hvað hlutirnir geta breyst hratt. San Francisco 49ers gerði vel í að halda niðri stórskotaliði Chiefs fram eftir leik en í lokin sýndu verðandi meistarar að það er nánast ómögulegt í heilum leik.

Patrick Mahomes með fyrsta snertimarkið sjálfur
Patrick Mahomes byrjaði með boltann en ekkert varð úr fyrstu sókn Kansas City Chiefs. Nýliðinn Deebo Samuel hjá San Francisco 49ers fékk mikið boltann í upphafi leiks og tvisvar bauð Kyle Shanahan upp á svokallað gabbkerfi í fyrstu sókninni.
49ers náðu þó bara vallarmarki Robbie Gould í fyrstu sókn og Patrick Mahomes svaraði með því að fara upp allan völlinn og skora síðan sjálfur snertimark með því að hlaupa boltann yfir marklínuna.
Skömmu áður höfðu allir á vellinum tekið andköf þegar Mahomes fékk högg þegar hann reyndi að hlaupa með boltann. Mahomes lét það ekki stoppa sig í næsta kerfi á eftir og var fyrsti leikstjórnandinn í átta ár sem skoraði snertimark með því að hlaupa með boltann í markið. Kanas City komst seinna í 10-3.
Næstu tvær sóknir Jimmy Garoppolo og félaga í San Francisco 49ers voru eins ólíkar og þær gerast. Í þeirri fyrri kastaði hann boltanum frá sér en í hinni fór hann upp allan völlinn í frábærri sókn og endaði með því að finna Kyle Juszczyk sem skoraði.
Kyle Juszczyk er svona maður sem gerir allt mögulegt í sókn 49ers en fæstir bjuggust þó við að hann myndi skora fyrsta snertimark liðsins í Super Bowl. Hann jafnaði metin í 10-10 en Chiefs liðið hafði aðeins náð að breyta tapaða boltanum hjá Garoppolo í vallarmark. Ekki var skorað meira fyrir hlé.

49ers komust í 20-10
San Francisco 49ers byrjaði seinni hálfleikinn, alveg eins og fyrri hálfleikinn, á vallarmarki Robbie Gould og komst þar með í 13-10.
Patrick Mahomes var búinn að bíða lengi eftir að fá boltann þegar loksins kom að fyrstu sókn Chiefs í seinni hálfleik og sóknin endaði á því að Mahomes kastaði boltanum frá sér. Þetta var í fyrsta sinn sem hann kastar boltanum frá sér á ferlinum í úrslitakeppni.
Jimmy Garoppolo hélt áfram að spila frábærlega og fór aftur með 49ers liðið upp völlinn. Kyle Juszczyk var næstum því búinn að skora aftur en á endanum var það Raheem Mostert sem hljóp með boltann í markið og San Francisco 49ers var komið í 20-10.
Patrick Mahomes kastaði aftur boltanum frá sér þegar Tryeek Hill náði ekki að grípa sendingu frá honum. Chiefs liðið fékk boltanum hins vegar aftur án þess að fá á sig stig. Tyreek Hill bætti fyrir mistökin með því að grípa langan 44 jarda bolta og Travis Kelce minnkaði síðan muninn í 20-17 með snertimarki.
San Francisco 49ers náði ekki að svara, Chiefs liðið fékk boltann fljótt aftur og var búið að finna taktinn. Patrick Mahomes geystist upp völlinn og sóknin endaði á snertimarki frá hlauparanum Damien Williams. Chiefs var þar með komið yfir í 24-20 og 49ers þurftu allt í einu snertimark.
Það gekk ekki og í stað þess skoraði Damien Williams sitt annað snertimark í leiknum og innsiglaði sigurinn.