KA hefur fengið nígeríska framherjann Jibril Abubakar á láni frá FC Midtjylland í Danmörku en hann mun leika með liðinu út ágúst.
Jibril Abubakar er tvítugur sem hefur verið að leika með unglingaliði Midtjylland en hann hefur vakið athygli með frammistöðu sinni í Evrópukeppni unglingaliða þar sem Midtjylland hefur gert frábæra hluti.
Jibril er stor og stæðilegur en hann er 193 sentímetrar. KA hefur því náð í góða hæð í liðið því á dögunum gekk Mikkel Qvist í raðir liðsins. Hann er varnarmaður og mun einnig spila með liðinu út ágúst en hann er 203 sentímetrar.
Bjóðum Jibril Abubakar velkominn í KA! #LifiFyrirKAhttps://t.co/SNXTy5MQ7jpic.twitter.com/AmdDJO6G6d
— KA (@KAakureyri) February 18, 2020
Þeir gulklæddu urðu fyrir áfalli á dögunum er Elfar Árni Aðalsteinsson sleit krossband og hann mun ekki spila með liðinu á leiktíðinni. Því ákvað félagið að næla sér í annan sóknarmann.
KA endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildar karla á síðasta tímabili. KA sækir ÍA heim í 1. umferð deildarinnar 23. apríl næstkomandi.